Að synda er góð líkamsrækt!

29.10.2021

Við íslendingar höfum ákveðna sérstöðu í okkar skólakerfi miðað við allan heiminn. Okkur er kennt að synda! Af hverju ekki að nota sundið sem okkar líkamsrækt. Nú ætla ég að gefa þér 10 ástæður fyrir því af hverju þú ættir að skella þér í laugina og rifja upp gamla takta úr skólanum.

1. Eykur liðleika – Sund er mjúk hreying sem setur lítið álag á bein og liðamót. Í sundlaugum hér á landi þar sem vatnið er allt frá 27 – 30 gráður þá ná vöðvarnir góðri slökun og hjálpar þér að teygja á mikilvægum vöðvum. Ef þú ert mikið fyrir það að hlaupa eða hjóla þá er sund tilvalin íþrótt til að slaka á eftir erfiða æfingu og hjálpa þér að hreinsa líkamann og losa um stífleika.

2. Brennsla – Sund er einhver auðveldasta leið til að brenna í burtu óþarfa kalóríur. Klukkustundar sund á rólegu tempói brennir allt að 500 kcal. Sund eykur grunnbrennsluna og heldur áfram að brenna eftir æfingar.

3. Bætir vöðvasamræmi – Þegar þú syndir þá notar þú yfir 2/3 vöðva líkamans í það að koma þér áfram. Þú notar hendur, fætur, búkinn, höfuð og þarft að láta alla þessa vöðva vinna saman til þess að finna hið fullkomna jafnvægi til þess að njóta sundsins.

4. Bætir líkamsstöðuna – Hversu oft í æsku sagði mamma þín þér að rétta úr þér – standa bein/n í baki. Sund styrkir liðamót og bætir líkamsstöðuna með því að rétta úr hryggjasúlunni. Sund er því tilvalið fyrir fólk sem er með alskyns bakvandamál.

5. Sund er fyrir ALLA. – Börn allt niður í 3 mánaða hafa möguleika á sundkennslu og fólk sem er 100 ára syndir. Um leið og þú kemur ofan í vatnið þá verður líkaminn þinn léttur, mjúkur og það skiptir ekki máli hversu gamall eða gömul þú ert líkamanum líður rosalega vel í vatni og þú í kjölfarið finnur til slökunar. Hversu gott væri að ná þeirri tilfinningu á hverjum degi.

6. Fullkomin líkamsrækt. – Eins og áður segir þá vinnur sund á flestum vöðvum líkamans. Sund er tilvalin íþrótt til þess að móta líkamann. Þú þarft ekki á þungum lóðum að halda, þú þarft ekki að kaupa rándýran íþróttafatnað. Eina sem þarf er líkaminn, sundfatnaður og sundlaugin.

7. Fulllkomin þol íþrótt – Sund talin ein fullkomnasta loftháða íþrótt sem til er. Ólíkt hlaupum þá þartu að stjórna öndun þinni mun meira í sundi sem kallar á meira súrefni til vöðvana, lætur þá vinna meira fyrir súrefninu án þess að þú takir eftir því. Sund styrkir einnig hjartavöðvan, stækkar það og gæðin í hverri pumpu verða betri sem leiðir til betri blóðrásar.

8. ALLA ÆVI. – Sund er íþrótt sem þú þarft aldrei að segja skilið við. Sund er íþrótt sem er til staðar fyrir þig alla ævi og þú getur stundað hana á hverjum degi.

9. Endurhæfing. – Ertu að jafna þig eftir meiðsli, slæm/ur í hnjám og þarft hvíld frá sífelldum höggum frá gangstéttinni. Sund er tilvalið fyrir þig til þess að viðhalda úthaldi og styrk. Með góðri þjálfun 3x í viku getur þú viðhaldið úthaldi og styrk í allt að 8 vikur á meðan þú jafnar þig af meiðslum.

10. Minnkar stress – Í sífellt hraðari heimi verður fólk stöðugt meira stressað. Það er marg sannað að sund getur bætt skapgerð og minkað stress hjá fólki. Það að skella sér í laugina eftir langan vinnudag dregur úr stressi og þú nærð fullkominni slökun á líkama og sál.


Greinin er tekin af Heilsumál og birt með leyfi höfundar, Guðmundar Hafþórssonar, yfirþjálfara sundfélagsins Ægis og íþróttafræðings