Syndaselur fór í sund eftir sjálfsmark í fótbolta

20.11.2021

Syndaselurinn Brynjólfur Björnsson er margfaldur Íslandsmeistari í sundi. Hann syndir sjálfur daglega og kennir sívinsæl námskeið í skriðsundi og garpasundi.

Sundið er örlagavaldur í mínu lífi. Það kikkaði inn þegar ég skoraði sjálfsmark hjá Þrótti í æsku og fékk að hætta í fótboltanum. Í framhaldinu prófaði ég að fara á sundæfingu og hef ekki stoppað í sundinu síðan. Það átti strax vel við mig og mér leið alveg rosalega vel í vatninu.

Þetta segir Brynjólfur Björnsson, sundþjálfari og syndaselur með meiru.

„Viðurnefnið syndaselur hefur fylgt mér frá því á unglingsárunum þegar ég æfði og keppti í sundi hjá Sunddeild Ármanns. Þá var ég spurður hvort ég væri syndur sem selur, sem ég og játti og var þá réttnefndur syndaselur, sem er auðvitað afbökun á hefðbundinni merkingu orðsins syndasels,“ útskýrir Brynjólfur og hlær.

Brynjólfur setti ýmis met í aldursflokkum ásamt því að verða nokkrum sinnum Íslandsmeistari í flugsundi, fjórsundi og skriðsundi.

„Besti árangurinn var Íslandsmet í 1.500 metra skriðsundi árið 1978, sem ég bætti árið á eftir, en sundferlinum lauk þegar ég lenti í vinnuslysi og braut báðar hendur illa.“

Endurnærandi að fara í sund
Sund er að mati Brynjólfs ein albesta líkamsrækt sem hægt er að stunda.

„Sund hefur einstaklega góð áhrif á heilsu og hreysti. Þegar við syndum þjálfum við hjarta- og æðakerfi okkar og virkjum flesta vöðvahópa líkamans. Þá er meiðslahætta lítil sem engin í sundi því vatn veldur mjúku álagi á líkamann, öfugt við sumar íþróttir sem valda snöggu og harkalegu álagi á liði og vöðva, sem svo getur valdið meiðslum,“ upplýsir Brynjólfur.

Góður sundsprettur hefur jafnframt undurgóð andleg áhrif á hug og hjarta.

„Flestir sem fara í sund þekkja vellíðunina sem fylgir því að fara ofan í sundlaug, jafnvel þótt þeir syndi ekki mikið. Það eitt að vera í vatninu endurnærir mann og hvað þá ef maður syndir líka og fær þjálfun fyrir hjarta- og æðakerfið. Sund nærir líka sálartetrið því eftir sundferð er maður eins og nýr maður. Ég vil meina að fólk sem stundar sund haldi sér ungu í útliti, sál og sinni. Það tónar allan skrokkinn í sundinu, ber sig vel og lítur frísklega út,“ segir Brynjólfur.

Í sjóinn þegar laugarnar lokuðu

Syndaselurinn Brynjólfur segist heppinn að hafa dottið í sundið sem krakki og sund er enn hans helsta hreyfing.

„Sund er besta hreyfingin fyrir mig. Ég nýt þess að synda því mér líður svo vel á sundi, og syndi þá aðallega baksund og skriðsund, en síður bringusund þar sem ég er slæmur í hnjánum. Svo fer ég líka í sjóinn,“ segir Brynjólfur kátur.

Hann hafði aldrei ætlað sér í sjósund en skorti útrás fyrir hreyfingu í vatni þegar sóttvarnayfirvöld lokuðu sundlaugum landsins í strangasta samkomubanninu.

„Því má segja að sitthvað gott hafi hlotist af Covid því ég sá ljósið hvað sjósund varðar og finnst nú geggjað að blanda sjósundi saman við sund í sundlaug þar sem ég syndi einn til tvo kílómetra í einu til að fá hreyfinguna. Í sjóinn sæki ég til að fá kælingu og öll steinefnin sem þar er að finna og hafa svo góð áhrif á húðina. Kuldi hefur góð áhrif á bólgur og ég finn að mér líður svo miklu betur í skrokknum eftir að ég fór að synda í köldum sjó. Menn voru auðvitað búnir að benda mér á kosti sjósunds í langan tíma en ég asnaðist ekki til að prófa fyrr en þeir lokuðu laugunum og nú reyni ég að fara þrisvar í viku í sjóinn og fjórum sinnum í laugina á móti,“ greinir Brynjólfur frá.

Gaman að keppa við sjálfan sig
Sundið hefur gefið Brynjólfi margt og segir hann sund almennt mjög gefandi sport fyrir þá sem stunda það.

„Félagsskapurinn er dýrmætur þeim sem stunda sund, sækja námskeið og sundlaugarnar. Sjálfur hef ég kynnst fullt af yndislegu fólki. Sundkennslan er gefandi starf og mér finnst alltaf jafn gaman að kenna. Ég fæ mikil viðbrögð frá nemendum mínum og hef unun af starfinu, ég legg mig allan fram og fólk finnur það. Það nær árangri, því líður vel og hefur gaman,“ segir Brynjólfur.

Hann hefur kennt landsmönnum sund í meira en þrjá áratugi.

„Þeir sem koma til mín eru fullorðið fólk sem hefur löngun til að bæta sig eða læra sund frá grunni. Það er auðvitað ólíkt kennslu í skólasundi þar sem sumir vilja hreinlega ekki mæta í sund og megnið af tímanum fer í að kljást við agavandamál. Því er enginn dreginn á sundnámskeið fullorðinna, sem auðveldar allt og gerir svo skemmtilegt.“

Brynjólfur segir misjafnt hversu fljótt fólk nær tökum á því að verða vel synt.

„Sundþjálfun skilar sér alltaf til hvers og eins, og þótt hraðinn sé misjafn fá allir sína styrkingu og þjálfun fyrir hjarta- og æðakerfið. Þá er tilfinning fyrir vatni misjöfn og því verða ekki allir jafn hraðir, þótt æft sé svipað. Flestir líta á sund sem skemmtilega líkamsrækt þótt innan um séu alltaf einstaklingar sem sækja í mót og vilja keppa. Engu að síður er gaman að keppa við sjálfan sig í sundi, að sjá mælanlegan árangur á eigin getu og framförum.“

axandi vinsældir sunds
Brynjólfur hefur ekki tölu á þeim fjölda sem sótt hefur vinsæl námskeið hans í skriðsundi og garpasundi undanfarna áratugi, en vinsældir námskeiðanna fara sívaxandi.

„Það er aldrei of seint að byrja að læra sund. Þeir sem koma til mín eru á öllum aldri, nema í garpasundinu þar sem aldurstakmark er tuttugu ár, og hef ég verið með einstaklinga yfir áttrætt sem koma til að læra skriðsund,“ upplýsir Brynjólfur.

Hann segir skriðsund fara mýkst með skrokkinn.

„Á skriðsundi fer maður líka hraðar og fólk vill komast á gott skrið. Það kveikir í mörgum að sjá hversu margir eru farnir að synda skriðsund, því hér áður fyrr var það þannig að ef fólk sást á skriðsundi var vitað að það æfði sund. Þetta hefur breyst mikið á þrjátíu árum og hefur sundið átt vaxandi vinsældum að fagna vegna aukinnar eftirspurnar eftir markvissri sundþjálfun. Æ fleiri sækjast eftir því að ná góðum tökum á skriðsundi til að geta stundað sjósund, keppt í þríþraut, landvættum eða öðru, því svo ótal margt spennandi er í boði sem kallar á góðan grunn í skriðsundi.“

Flugsundið skemmtilegast
Garpasund eru sundæfingar fyrir fullorðna og til að komast í hóp garpa þarf að kunna skriðsund.

„Á garpasundæfingum eru allar sundaðferðir syntar en aðaláherslan er á skriðsund. Æfingar eru fjölbreyttar og miða að því að auka samhæfni, laga sundtækni, og styrkja og auka úthaldið,“ skýrir Brynjólfur.

Til að bæta og laga sundtækni sé alltaf best að fá leiðsögn hjá sundkennara.

„Margir upplifa sig gera ákveðna hluti rétt en sá sem stendur á bakkanum hefur yfirsýn yfir hvað betur má fara. Margir beita sér vitlaust í sundi og má til dæmis nefna bringusund sem synt er með höfuðið upp úr. Það er ekki gott því af því hlýst vöðvabólga. Vissulega má svo skoða myndbönd og lesa sér til um sund, en það er alltaf best fyrir skrokkinn og rétta sundbeitingu að fara á námskeið eða skrá sig í sundhóp með þjálfara,“ segir Brynjólfur.

Að hans mati er flugsund fegursta sundaðferðin.

„Flugsund er skemmtilegasta sundið, en maður syndir ekki langt á því. Á garpanámskeiðum lærir fólk að synda flugsund og hefur af því mikið gaman. Skriðsund er líka mjög tíguleg sundaðferð og mest notuð. Ég fæ iðulega til mín fólk yfir sjötugt sem syndir yfir kílómetra á skriðsundi. Þetta geta því allir og njóta til hins ítrasta þegar færninni er náð.“ ■

Sjá nánar á syndaselur.com

Grein tekin úr Fréttablaðinu 4. nóvember 2021
Mynd: Fréttablaðið/Valli