Setningarhátíð Syndum - landsátaks í sundi fór fram 1. nóvember

01.11.2023

Syndum, landsátak í sundi var ræst með formlegum hætti í Sundlaug Kópavogs í morgun í þriðja sinn. Markmiðið með Syndum er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi og nota meðal annars sund til þess. Þeir metrar sem landsmenn synda, á meðan á átakinu stendur, safnast saman og á forsíðu www.syndum.is verður hægt að sjá hversu marga hringi landsmenn hafa synt í kringum Ísland.

Ávörp við setninguna fluttu Hafsteinn Pálsson, úr framkvæmdarstjórn ÍSÍ, Björn Sigurðsson, formaður Sundsambands Íslands og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.
Hafsteinn setti átakið með formlegum hætti og benti á kosti þess að hreyfa sig og nýta sundlaugarnar til þess. Björn sagði frá skemmtilegu verkefni innan Syndum, en í ár er ætlunin að setja kastljós á skólasund grunnskóla og tengja það við Ólympíuleikana í París 2024. Sundsambandið verður með tvo fulltrúa sem fara á Ólympíuleikana í París á næsta ári, þau Anton Svein Mckee og Snæfríði Sól Jórunnardóttur. Leiðin til Parísar frá Íslandi er 2.246 km og ætlunin er að fá grunnskólanemendur í skólasundi til að synda með táknrænum hætti sem samsvarar leiðinni til Parísar. Nokkrar sundlaugar munu fá heimsókn frá Antoni Sveini.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs tók svo til máls og tók fram hvað þau væru heppin í Kópavogi að eiga þessar frábæru sundlaugar. Hún var stolt af fólkinu sem kæmi í laugarnar jafnvel á hverjum degi til að bæta sína heilsu, því sund væri frábær leið til lýðheilsu. Hún var líka afar stolt af fólkinu sem skráði metrana sína inn í Syndum á síðasta ári, sem setti Sundlaug Kópavogs í efsta sæti á síðasta ári með yfir 1.900km synta .
Sundgarpar Helgu Guðrúnar Gunnarsdóttur hjá Vatnsþreki busluðu svo átakið í gang.

Munum eftir því hvað sund er frábært og verum með! Skráning hér
Fleiri myndir frá setningunni má sjá hér 

UM VERKEFNIÐ
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. - 30. nóvember 2023. Syndum er heilsu- og hvatningarátak sem höfðar til allra landsmanna. Markmiðið með Syndum er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi og nota meðal annars sund til þess.
Átakið var formlega sett á laggirnar árið 2021 og fer nú fram í þriðja skipti. Í átakinu taka landsmenn sig saman og synda hringi í kringum Ísland en í fyrra náðist að leggja að baki 10.2 hringi í kringum landið.

Síðustu ár hafa sýnt okkur með óyggjandi hætti að góð heilsa er ómetanleg.
Það er margt sem við getum gert til að bæta og viðhalda líkama og sál og allt telur. Íslendingar hafa verið duglegir að stunda sund enda búum við vel að góðum sundlaugum um allt land.
Sund er fyrir alla, óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi og er tilvalin þjálfunaraðferð sem styrkir hjarta- og æðakerfið, lungu og vöðva líkamans en er einnig frábær og skemmtileg tómstundaiðja sem öll fjölskyldan getur stundað saman.
Til þess að taka þátt þarf að skrá sig inn á www.syndum.is og fara í Mínar skráningar. Einfalt er að velja sér notendanafn og lykilorð og skrá synta metra. Þeir sem eiga notendanafn úr Lífshlaupinu eða Hjólað í vinnuna geta notað það til að skrá sig inn. Þeir sem eru þátttakendur í verkefninu eiga möguleika á að verða dregnir út og unnið frábæra vinninga. Á heimasíðu verkefnisins www.syndum.is má finna skemmtilegan fróðleik og upplýsingar um allar sundlaugar landsins.